We use cookies to personalise content and ads, to provide social media features and to analyse our traffic. Read more…
Saturday
07
APR

Veirur og vísindasaga. Málþing um vísindi og samfélag

13:30
15:30
Safnahúsið - Culture House
Event organized by Safnahúsið - Culture House

Get Directions

Category
#var:page_name# cover

Málþing á vegum Vísindafélags Íslendinga um veirur og vísindasögu í Safnahúsinu við Hverfisgötu laugardaginn 7. apríl kl. 13.30. Allir velkomnir. Flutt verða þrjú erindi þar sem sjónum verður bæði beint almennt að íslenskri vísindasögu og tilteknum þætti hennar í fortíð og nútíð, þ.e. hvernig rannsóknir á sauðfjársjúkdómum á tilraunastöðinni að Keldum hafa nýst til skilnings á HIV-veirunni og í baráttunni við hana. Sá hluti er ekki einungis sögulegur því að mikilvægar uppgötvanir hafa verið gerðar í nýjustu rannsóknum á Keldum sem skipta máli fyrir samtímann og framtíðina.

Sigurður Guðmundsson, prófessor við læknadeild HÍ, segir frá arfleifð Björns Sigurðssonar sem kom á fót tilraunastöðinni að Keldum um miðja 20. öld og gerði merkar rannsóknir á mæði-visnuveirunni í sauðfé sem reyndust löngu síðar ómetanlegar við rannsóknir á HIV-veirunni. Valgerður Andrésdóttir, sameindalíffræðingur á Keldum, gerir síðan grein fyrir nýlegum rannsóknum á mæði-visnuveiru og tekur dæmi um hvernig þær hafa nýst til skilnings á HIV-veirunni og í baráttunni við hana. Einnig fjallar Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emeritus, um sögu íslenskra vísinda síðustu öldina og tekur dæmi um gagnkvæma víxlverkun vísinda og samfélags, þ.e. ýmiss konar áhrif vísindanna á líf fólks og störf en einnig fjölbreytt áhrif samfélagsins á vísindin, verkefnaval og afurðir.

Málþingið er það fyrsta af sex sem Vísindafélag Íslendinga stendur fyrir á árinu um vísindi og samfélagslegar áskoranir í tilefni af aldarafmæli bæði félagsins og fullveldis Íslands. Hlutdeild vísindanna í íslenskri menningu frá fullveldi verður m.a. skoðuð á málþingunum en ekki síður er ætlunin að stuðla að almennri umræðu um samhengi vísindanna við samfélagslegar áskoranir með framtíðina í huga.
Málþingin verða öllum opin og haldin á laugardögum kl. 13.30 sem hér segir:
• 7. apríl í Safnahúsinu við Hverfisgötu
• 5. maí í Nýheimum á Höfn í Hornafirði
• 8. september í Þjóðminjasafni Íslands
• 6. október í Háskólanum á Akureyri
• 3. nóvember í Háskólanum í Reykjavík
• 1. desember í Háskóla Íslands